miðvikudagur, maí 24, 2006

Meira kaffi !

Ég sagði frá espressobollasöfnun minni í gær. Margir þekkja kaffiástríðu mína. Það er ekki bara bragðið og félagsskapurinn, það sem heillar er allt í kringum sælkerakaffi, það er allt svo fallegt og kaffi er svo fallegt á litinn og spennandi.
Ég er núna á Kaffi Krús á Selfossi. Eina netkaffi Suðurlands. Kaffið hér er gott, hefur batnað við eigendaskipti og staðurinn orðinn reyklaus líka sem er nú ekki verra.
Ég er svo syfjuð að ég býst við að ég gæti drukkið annan bolla til en við sjáum nú bara til með það.

Ég fór í Vallaskóla í dag og skrifaði undir samning hjá stjóranum. Ég mun kenna myndmennt í 1. - 5. bekk, gangi allt eftir. Það er alltaf í skólastarfi að það getur þurft að hagræða fram á síðustu stundu en annars er þetta nokkurn veginn svona og er ég alveg hæstánægð. Mér líst mjög vel á þennan aldur og að vera með fleiri en einn bekk af hverjum aldri.

Ég ætla að gista, í fyrsta skipti, hér á Selfossi. Við erum með gamlan bedda í Réttarholtinu sem er frá ömmu og afa (sigló slektið). Ég svaf á honum all oft hjá þeim hér á árum áður. Núna er ég eldri og slappari og það er beddinn einnig ! Ég læt mig nú hafa það í eina nótt. Svo kemur Guðmundur á morgun og við reynum eitthvað að dúttlast í húsinu við að undirbúa málningarverkið sem framundan er.

Engin ummæli: