mánudagur, júlí 10, 2006

Heitur sumardagur

Geggjað veður í dag hér undir fjöllunum. Ég hef samt haldið mig við inniverkin að nokkru. Þar er að mörgu að hyggja þar sem nú stendur yfir undirbúningsvinna fyrir væntanlega flutninga. Þetta gerist allt hægt og rólega hjá okkur Guðmundssen.
En nú er mér óhætt að fara út. Ég er búin að maka á mig sólarvörn. Númer 50 + held ég. Ég þoli ekki lengur mikla sól í andlitið því að ég fæ brúna bletti. Þeir eru þarna en dökkna og fjölgar við sólargeislana og þarf ekki sól til að það gerist. Nóg að það sé léttskýað og að maður sé útivið. Ég sem var brjálaður sóldýrkandi forðast nú sólina ! Það er af sem áður var , myndi maður segja.
Ég fór út áðan og tók til græjur og núna er GR að slá í kringum jarðaberjakassann fyrir mig. Eygló, systir GR, gaf okkur jarðaberjaplöntur fyrir margt löngu. Og nú eru þær að blómstra í fyrsta skipti en eru því miður í mikilli baráttu við alls kyns "óværu" , svo sem gras, sóleyjar, njóla og annað þess háttar. Verkefni dagsins er að bjarga þeim frá köfnum og sjá til þess að einhver ber líti dagsins ljós í haust. Svo dróst það nú að setja plast á kassann (maður ræskir sig nú...) og ætla ég nú að bæta úr því. "Betra seint en aldrei" hefur lengi verið uppáhalds máltæki mitt þar sem það reddar heiðri mínum ansi oft.
"Dönsku" drengirnir, Styrmir og Stefnir eru farnir upp í fjall á sundskýlum til að fara í fossasturtu. Það er vinsælt hjá krökkum hér að fara upp í fjall á góðviðrisdegi og bleyta aðeins í sér. Ég skil það mjög vel því að ég man vel eftir þeim dögum er maður undi sér við að busla í vatni þegar færi gafst. T:d. með langömmu í bústað hennar í Fljótunum og við Hvin , við Þingvallavatn. Þar var spennandi lækur að leika sér í og var jafnvel hægt að liggja þar á vindsæng. Seinna fór ég svo í "randonné aquatigue" í Cevenna fjöllunum í Suður Frakklandi. Þar fór ég niður árfarveg í blautbúningi og voru ýmsar kúnstir stundaðar á leiðinni. Svo hefur maður nú farið nokkrum sinnum í "river rafting" og líka stokkið úr nokkurri hæð út í Hvítá og líka þessa frönsku á , sem ég man ekki lengur hvað heitir.

Engin ummæli: